þriðjudagur, nóvember 07, 2006

Fondúrugl

Við ákváðum að bregða út af vananum á dögunum og átum kvöldverð með Amín, Hressa og Heklu. Fengum þau yfir í urrandi fondú að hætti Hússeins. Daginn fyrir og á eftir borðuðum við líka með þeim en það má segja að það hafi verið algjör tilviljun.


Mannskapurinn bíður átekta. Gunnar Magnús orðinn óþreyjufullur að fá að dýfa gafflinum ofan í sjóðheita olíuna. Hér leikur hann afríkufíl til að sýna ljósmyndara hve spenntur hann er.


Mæja, Grímur og Anna bíða spennt eftir að Sonja beri fondúgeðveikina á borð.


Eins og sjá má á Heklunni var þema kvöldsins nærbuxur. Allir fondúgestir áttu að mæta á nærbuxunum. Eftir að Hressi hafði fengið kaffi og koníak brá hann á leik með ljósmyndara og sýndi honum allar helstu tannskemmdir sínar.

þriðjudagur, október 31, 2006

Gámi gám

Hér vestan hafs er allt að verða vitlaust við undirbúning búferlaflutningsins mikla. Fáum afhent 15. desember og byrja líka að vinna sama dag. Einnig gaman að segja frá því að ég tók bæði atvinnutilboðinu og gerðum tilboðið í Garðastrætið sama dag. Alveg hreint magnaður andskoti.

María gaggar í mér allan daginn að taka flottan töffarajeppa með heim. "Nýjan Grand!", "Explorer Eddie Bauer, eða ég hætti að elda," segir hún allan daginn. Ætli maður verði að láta valta yfir sig eina ferðina enn. Annars er mjög mikilvægt að eiga töffarajeppa - ég þekki það manna best. Þegar öllu er jú á botninn hvolft í lífinu er þetta bara spurning um að vera gæi.

Dagarnir hérna fara í að ramba milli húsgagnaverslana, kaffihúsa, veitingahúsa og útihúsa (Hressi aðallega). Nú er verið að vinna í að panta gám og það á að hnoða ýmsum af þeim munum sem okkur hefur áskotnast undanfarin tvö ár, til viðbótar við ýmiss konar nytjavarning.

Fór á Placebo á Showbox. Ljómandi hressir hommar. Þar lék einnig fyrir dansi hljómsveit að nafni She wants revenge. Minnti dulítið á Interpol, nema Interpol er mun hressari.

Erum að hugsa um að leigja okkur sumarhús undir rótum Reynisfjalls næstu helgi eða skreppa jafnvel til Vancouver BC. Nánar um það í næsta tölublaði.


Malí og litli kútur á hallóvín-hátíðinni í Radfordinu. Það eru fleiri hallóvín-myndir á heimasíðu JB og Magneu.


Hekla sýnir múttu sinni hvernig á að búa til súkkulaðiköku.


Við létum okkur ekki vanta í Valle móttökuna enn eitt árið. Einungis Bobbie á Valle skrifstofunni hefur mætt oftar en María. Á myndinn sést hvernig veislugestir fylgjast agndofa með Jóni Marvin fara með gamanmál. Hann sagði meðal annars nokkra mjög fyndna brandara um Pétur Vilhjálmsson, fyrrum nágranna minn.


Gunnar Magnús varð hressari og hressari eftir því sem leið á móttökuna mamman varð ölvaðri.


Malí mín vildi ólm komast í kjötbolluát með sósu og rifsberjahlaupi í IKEA einn daginn. Eins og sjá má á myndinni er fólkið bakvið Malí í þann mund að tvíbæta Washingtonmet sitt í raðkappáti innanhúss.


María er listræn. Hún tók þessa fallegu mynd af I-5 á leiðinni í bæinn.


Það kemur fyrir að vistmenn #4013 kíki í heimsókn til okkar, og öfugt. Við vorum með hressa matargesti hjá okkur sl. laugardag. JB og Magnea, og Amín, Grýlur og Hekla kíktu í kalkún og með því. Meðal veitinga var þessi prumpkin súkkulaðiterta. Sannkölluð veisla fyrir bragðlaukana eins og merkja má af svip Heklu.


Sonja frá Póllandi, ný au pair hérna í Rassfordinu, sá um að pensla kalkúninn áður en veislugestir létu sjá sig. Sonja, sem talar litla íslensku og þaðan af síður ensku, ætlar að sjá um að raða í gáminn fyrir okkur. Áhugmál hennar eru dægurlagatónlist og frímerkjasöfnun.

föstudagur, október 20, 2006

Tilkynning

Vegna fjölda athugasemda kemur hér færsla. Það er nú fátt búið að gerast hérna í Sívætlu annað en að ég fer nánast daglega með Amín og Heklu í U-Village og fæ mér kaffi og hádegismat, förum svo út að borða eftir síðdegisblund og svo drekk ég bjór og horfi á Family Guy eða South Park með Hressa, mági (e. seagull) mínum. Ef ég finn eyðu í prógramminu slæ ég í tennisbolta eða fer í skvass.

Vefsetrinu hefur annars borist tilkynning þess efnis að The Erlingsson Family hyggst flytjast búferlum til lands elda og ísa. Landið er einnig þekkt sem heimaland íslenska hestsins (ég eftirlæt nú lesanda að geta hvert landið er). Ég er sem sé kominn með vinnu í ævintýraborginni Reykjavík, sem er betur þekkt fyrir hóflegt verðlag og blíðskaparviðri. Í kjölfarið gerðum við kauptilboð í íbúð við Garðastræti 17 sem var samþykkt. Fáum afhent um miðjan desember.

Við erum því líka þessa dagana að þeysast milli húsgagnaverslana og láta hugann reika. Við ætlum nefnilega að nýta hvern einasta rúmsentímetra í gámnum sem við tökum með heim af alls kyns drasli sem við höfum sankað að okkur undanfarin tvö ár. Meðal þess sem mun verða flutt heim er blaknet, jólatrésfótur, hjónarúm, kælibox, fondúpottur og bleyjur fyrir litla kút svo fátt eitt sé nefnt. Ég á nú eftir að taka eina grand finale ferð í Costco þar sem allur andskotinn verður keyptur - ef ég þekki mig rétt.

Jæja, hérna koma huggulegar myndir af huggulegu fólki. Vinsamlegast prentið þær út og njótið þeirra.


Hekla og Gunnar Magnús að borða fajita bourito á Chipotle. Gunnar Magnús missti sig alveg og drakk tvo lítra af tabasco sósunni meðan mamma hans leit undan.


Amín, Hekla heimsborgari og útlendingur sem við fundum og okkur fannst svipa til Gríms. Hekla drekkur aðeins fjórfaldan espresso. Henni finnst ekki taka því að taka þrjú skot.


Fengum okkur hamborgara eitthvert hádegið á Pike Place Market þar sem þetta skilti var við eitt sætið. Við sætið við hliðina á stóð "VIDAR LU POOPED HERE when he visited Seattle".


Það vantaði bjölluna í Gettu betur (Borghildur er með hana í láni) og þess vegna þurfti að slá á mitt borðið í bjölluspurningunum. Grímur ruglaðist hins vegar nokkrum sinnum og prumpaði óvart í staðinn. Þá kom vond lykt. Þessi mynd er tekin við slíkt tækifæri.


Malí og Gunsmoke jr. úti að borða í hádeginu.


Gunnar Magnús les fyrir frænku sína.


Jei, jei, Gunnar Magnús.


Litli kútur að borða pasta hjá Amín.


Blómarósin hún María má ekki sjá til sólar öðruvísi en að taka fram frisbídiskinn. Ég sé eiginlega hvort það sé gott eða vont veður með því að athuga hvort frisbídiskurinn sé á sínum stað þegar ég vakna.

fimmtudagur, september 21, 2006

Kúluskítur

Ekkert nýtt í þessu. Búinn að fara í tvö viðtöl. Sjáum hvernig það fer. Hitti einhvern böseling í Securitas-búning á leiðinni í viðtalið. Hann hafði orð á því hvað jakkafötin mín væru falleg og óskaði mér góðs gengis. Eftir viðtalið hitti ég hann aftur; hann spurði mig hvernig gekk og sagðist vonast til að sjá mig aftur á svæðinu. Jammjamm.

Annars allt að gerast hérna í Rassfordinu. Við erum að vinna í Little Britain á Netflixinu þessa dagana með Hressa mávi. Það er voðafínt með einum Fat Tire og nammi.

Ble.

þriðjudagur, september 19, 2006

Hressandi myndir


Á leið í heimsókn til Önnu, Gríms og Heklu í næsta húsi.


Hressi mávur hafði búið til þessa fallegu samloku handa mér þegar við komum yfir. Egg, beikon, skinka, rækjur, ostur og bakaðar baunir voru meðal þess sem fannst á samlokunni. Á samlokuna vantaði hins vegar sárlega þorskhnakka og graslauksfroðu.


Mæja og Hekla að fara með Gunsmoke jr. til læknis.


Eiturhress.


Heimsborgarar á hóteli við Union Square.


Ávallt hress.


Þessi er líka ávallt hress.

laugardagur, september 16, 2006

Grímur fer í skólann


Náði þessari skemmtilegu mynd af Grími mávi mínum þegar hann var að fara í skólann. Í bakpokanum hafði hann meðferðis epli, brauð með miklu hnetusmjöri, slönguspil fyrir frímínúturnar og Jónsbók ef hann þyrfti að segja eitthvað lögfræðidót í skólanum.

fimmtudagur, september 14, 2006

VerðbólguskotEins og sjá má á myndinni er greinilega um verðbólguskot að ræða en ekki verðbólgu. Enn fremur sést glögglega að verðbólguskotið svokallaða er yfirstaðið. Það fer ekkert á milli mála samkvæmt myndinni. Því ætti að vera óhætt að ráðast í umfangsmiklar ríkisframkvæmdir. Einstaklingar ættu einnig að íhuga alvarlega að taka dýr lán til húsnæðiskaupa, fellihýsakaupa eða jeppakaupa því þetta er bara verðbólguskot.

Til gamans má geta þess að lægsta gildið á lóðrétta ásnum er hágildi þolmarka verðbólgumarkmiðs Seðlabankans. 7,6% verðbólga er bara 5,1 prósentustigum hærra en verðbólgumarkmiðið svo það er allt í sómanum því þetta er jú bara verðbólguskot.

þriðjudagur, september 05, 2006

Stórfjölskyldan hittist í Kaliforníu

Það hefur ekki farið mikið fyrir skrifum á þessari síðu að undanförnu. Við lögðum af stað til Kaliforníu fyrir tveimur vikum síðan og hittum Önnu, Grím og Heklu í Skeinis. Ókum síðan með þeim til Palo Alto til að hitta Barðstrendinga áður en við keyrðum eftir strandlengjunni til Los Angeles, þar sem við vorum í þrjá daga. Hittum svo Mamba og Öddu Mæju í San Francisco og fórum svo daginn eftir til Palo Alto aftur þar sem við erum búin að vera að miklu leiti. Hentumst þó í tvo daga til Napa til smakka sælkeravín og gera tilraun til að hella Maríu mína fulla.

Anna, Grímur og Hekla fóru á sunnudaginn til Seattle og verða í íbúðinni okkar þar til þau fá sína íbúð afhenta. Við stefnum á að verða komin til Seattle á föstudaginn. Það verður voðagaman að hitta þau. Við erum búin að vera á hótelum í tvær vikur svo það verður líka gott að komast í eigið rúm.

Það er langt síðan ég skrifaði eitthvað síðast svo hérna koma fullt af myndum. Mér væri ánægja ef þú, lesandi góður, myndir njóta þeirra. Frekari myndir ásamt magnþrungnum frásögnum er að finna á vefsetri Barðstrendinga og Maríu.


Það er greinilegt að fjölskyldan er þaulvön því að sitja í limósínu. Adda Mæja meikaði ekki að sitja aftur í hörðu sæti í sporvagni, eins og þegar hún tók sporvagninn frá Union Square til Fisherman's Dwarf, svo hún pantaði limmu. Móður minni fannst ekkert meira eðlilegt en að sitja í limmu.


Allt að verða vitlaust í San Fran.


Viðar margsuðaði að fá að hitta vini sína á þessum næturklúbbi í Sausalito. Við létum undan og fengum okkur indverskan heimsborgaramálsverð við lifandi tónlist. Vinur Viðars lék fyrir okkur á ýmis indversk hljóðfæri, íklæddur hvítu laki sem hann (Viðar) var búinn að kúka í. Það fannst okkur gott.


Golden Gate.


Hress systkini á St. Erling vínekrunni í Napa. Fyrir framan þau eru ég og Adda Mæja.


Ægifagrar vínekrur í Napadalssýslu.


Vínbændur í Napahéraði voru almennt sammála um að hafa sjaldan séð eins ölvaða fjölskyldu í vínsmökkun.


Borghildur sýndi fjölskyldunni allt það helsta sem Stanfordkampúsinn hefur upp á að bjóða. Sáum meðal annars þetta fallega fólk sem líktist skuggalega fjölskyldumeðlum mínum. Næstum því vandræðalegt.


Unga kynslóðin og fulltrúi þeirra gömlu í Barnes Court, Stanford.


Hekla og Afi Erlingur í San Fran.


Ég og pápi á Union Square.


Lítill afakall.


Það verður seint sagt um Gunnar Magnús að hann sé ekki hress. Þrátt fyrir að vera búinn að sofa á hótelum í tvær vikur og með allar sínar svefnvenjur í tómu rugli þessa dagana, þá tapar hann ekki gleðinni.


Patti broddgöltur í Solvang.


Hressi mávur minn sá það strax að hann varð að fá sér flottan töffarajeppa eins og mágsi sinn þegar hann kom til Ameríku. Anna og Grímur keyptu þennan fallega Ford Explorer fyrir allt sparifé Heklu litlu.


Hressi Hressason og dóttir hans bregða á leik fyrir framan ljósmyndara á veitingahúsi í Carmel.


Kalíforníuströndin er hugguleg og hress.


Malí eiturhress ásamt Gunsmoke jr.

laugardagur, ágúst 19, 2006

Smjörbubbi lætur að sér kveða

Jæja, þá er smjörbubbi aftur kominn á internetið. Amín, Hressi og Hekla voru hérna síðustu helgi. Þau fíluðu sig svo vel hérna að Gimmi er búinn að skipta um skóla (hafði áður komist inn í UW, en fékk plássið sitt aftur) og yfirgefa þar með UC Skeinis (sjá www.gayvis.blogspot.com). Stefnir í að þau flytji hingað í Rassfordið í næsta hús bráðlega. Við framlengdum leiguna okkar dulítið og ætlum að sjá hvað setur.

Malí er nú endanlega orðinn meistari eftir að hún skilaði inn ritgerðinni sinni á föstudaginn. Við feðgar eru einstaklega stoltir af stúlkunni. Hún fór með okkur Gunnar Magnús í afslöppunarbátsferð á Lake Washington þegar hún hafði lokið við að skila. Eins og sjá má á innfeldu myndinni var Maríu afar létt að vera búin með verkefnið.


Hressir á fjöllum


Hvers vegna fór skemmtikraftur og fréttamaður með Ómari og Geir að skoða Kárahnjúkasvæðið?

föstudagur, ágúst 11, 2006

Amín, Grýlur og Hekla í heimsókn

Malí ver verkefnið sitt á morgun. Ég sé um kökur, snittur og með því. Um kvöldið tökum við svo á móti Davisunum Amín, Hressa og Heklu. Þau verða hjá okkur fram á þriðjudag.

Klaufaskapur...
Ég var á leiðinni að synda úti í Lake Washington og nýbúinn að klæða mig í blautbúninginn úr Costco þegar Anna hringdi og sagðist vera á leiðinni í heimsókn. Þá prumpaði ég óvart af spenningi eins og sjá má á myndinni.